
UN Women á Íslandi og ÖBÍ réttindasamtök stóðu fyrir málstofu í Mannréttindahúsinu í morgun þar sem fjallað var um um stafrænt ofbeldi og áreitni og afleiðingar þess í raunheimum. Málstofan var haldin á fyrsta degi 16 daga átaks UN Women gegn kynbundnu ofbeldi, en í ár er sjónum beint sérstaklega að stafrænu ofbeldi.
Sunna Elvira Þorkelsdóttir, lögfræðingur hjá ÖBÍ, opnaði fundinn og lagði áherslu á að ofbeldi væri eitt alvarlegasta mannréttindamál samtímans. Hún minnti á að ein af hverjum þremur konum hafi orðið fyrir kynbundnu ofbeldi á lífsleiðinni og að stafrænir vettvangar fylgi fólki inn á heimili, vinnustaði og inn í félagslífið.
Stafrænt ofbeldi birtist til dæmis í kynferðislegri áreitni, eltihrellingu, dreifingu mynda án samþykkis, hatursorðræðu og hótunum, og hafi bein áhrif á líf, heilsu og öryggi þeirra sem fyrir því verða.
Fundarstjóri var Rakel Þorbergsdóttir, upplýsingafulltrúi og fjölmiðlakona, sem stýrði pallborði þar sem sátu Bergrún Andradóttir, skrifstofustýra Samtakanna ’78, Eygló Harðardóttir, verkefnastjóri afbrotavarna hjá Ríkislögreglustjóra, Ólafur Hrafn Steinarsson, framkvæmdastjóri Aska Studios og fyrrverandi formaður RÍSÍ, og Melína Kolka, framkvæmdastjóri TÍK, tölvuleikjasamtaka íslenskra kvenna.
Snertir verulegan hluta landsmanna
Eygló Harðardóttir greindi frá þeirri vinnu sem unnin var í tengslum við lagabreytingar á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga árin 2020 og 2021. Meðal annars var efni þróað fyrir grunnskóla, lögð áhersla á samþykki við miðlun myndefnis og efld þjálfun lögreglu.
Hún kynnti tölur um stafrænt kynferðisofbeldi þar sem sést að bæði myndbirtingar og hótanir um birtingu myndefnis snerta verulegan hluta landsmanna. Um leið kom fram að stúlkur í grunnskólum verði mun oftar fyrir beiðnum um kynferðislegt myndefni en drengir, þó báðir hópar séu útsettir.
Harðnandi umræða
Bergrún Andradóttir kynnti nýja greiningu Samtakanna ’78 á ummælum við fréttir á Facebook sem fjalla um hinsegin fólk. Í greiningunni voru skoðaðar tugþúsundir athugasemda og kom í ljós að umtalsverður hluti þeirra er hatursfullur eða niðrandi í garð hinsegin fólks.
Umræðan hefur harðnað á síðustu árum og kommentakerfi orðið vettvangur skipulegrar aðfinnslu og árása sem síðar endurspeglast í auknu áreiti í raunheimi, meðal annars í skólum og almenningsrýmum. Bergrún lagði áherslu á að þetta væri ekki einungis spurning um líðan einstaklinga heldur um lýðræðislega þátttöku heils samfélagshóps. Vakti hún sömuleiðis máls á gagnræðunámskeiði sem Samtökin hafa þróað.
Erfið reynsla í tölvuleikjum
Ólafur Hrafn Steinarsson lýsti stöðunni í tölvuleikjaheiminum þar sem fjöldi ungmenna ver stórum hluta frítíma síns. Hann benti á að hið stafræna nafnleysi og fjarvera líkamlegrar nærveru geri það að verkum að áreitni og ofbeldi geti magnast án þess að neinn fullorðinn sjái eða grípi inn í.
Á æfingum í rafíþróttum sé hins vegar hægt að stöðva ágreining, leiðbeina og læra heilbrigð samskipti, en það sé miklu erfiðara þegar samskiptin fara alfarið fram á netinu. Tölvuleikjafyrirtæki hafi ákveðið svigrúm til að bregðast við, til dæmis með viðvörunum og tímabundnum bönnum, en samfélagið verði líka að byggja upp jákvæða menningu og skýr mörk.
Melína Kolka deildi reynslu kvenna og kvára í tölvuleikjum. Hún lýsti því hvernig konur þyrftu oft að slökkva á hljóðnemum sínum eða fela kyn sitt til að komast hjá kynferðislegri áreitni, hótunum og niðurlægingu. Hún spurði hve oft kona ætti að þurfa að slökkva á hljóðnemanum til að fá að spila í friði og svaraði sjálf að svo ætti aldrei að þurfa að vera.
Melína undirstrikaði að ábyrgðin hvíli ekki á þeim sem verða fyrir ofbeldinu heldur á samfélaginu í heild, vinum sem leiðrétta vini sína, kerfum sem bregðast hratt við og leikjafyrirtækjum sem setja skýr viðmið og framfylgja þeim.
Stafrænt ofbeldi sem þöggunartæki
Í umræðum var fjallað um hvernig stafrænt ofbeldi er markvisst notað sem þöggunartæki gegn konum, fötluðu fólki, hinsegin fólki, pólitískum aktívistum, blaðafólki og öðrum sem stíga fram í opinberri umræðu.
Eygló benti á að löggjöf og reglur á netinu væru enn að ná utan um þetta svið og að það væri ekki hlutverk stórra tæknifyrirtækja að skilgreina ein og sér hvað teljist ásættanleg framkoma. Bergrún lagði áherslu á mikilvægi gagnræðu og hvatti almenning til að taka afstöðu, styðja þolendur og nota eigin rödd á netinu í stað þess að þegja.
Foreldrar og uppalendur tóku einnig til máls og lýstu áhyggjum af börnum sem bæði þolendum og gerendum í stafrænum heimum. Í svörum pallborðsins kom fram að hefðbundnar forvarnir virki enn, að foreldrar þurfi að setja mörk, vera fyrirmyndir í eigin skjánotkun og nýta fræðslu og verkfæri sem til eru, til dæmis á vefnum 112.is.
Ógn við lýðræðið
Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi, flutti lokaorð málstofunnar. Hún minnti á að dagurinn væri alþjóðlegur dagur Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi og að stafrænt ofbeldi væri ekki aðeins samfélagslegt vandamál heldur bein ógn við lýðræði þegar heilir hópar draga sig úr umræðunni af ótta við árásir. Hún hvatti til betri gagnaöflunar, aukinnar fjármögnunar og samstilltra aðgerða stjórnvalda, félagasamtaka, skóla, foreldra og tæknifyrirtækja.
ÖBÍ réttindasamtök leggja áherslu á að stafrænt umhverfi sé öruggt fyrir alla, ekki síst fatlaðar konur og fatlað fólk sem fyrir verður margþættri mismunun. Stafrænt ofbeldi er raunverulegt ofbeldi sem skerðir þátttöku í samfélaginu, heftir tjáningarfrelsi og getur orðið til þess að raddir jaðarsettra hópa þagni. ÖBÍ hvetur stjórnvöld, löggæslu, fjölmiðla, tæknifyrirtæki og almenning til að axla sameiginlega ábyrgð á því að breyta menningu, styrkja úrræði og tryggja að enginn verði skilinn eftir í skugga stafræns ofbeldis.