Skip to main content

Listaverkin í húsinu

Karl Guðmundsson og Erling T.V. Klingenberg

V-star / Permobil
Mótorhjólastóladekkjamálverk
2014
Akríl á striga
120 x 138 cm – tvö verk

Karl Guðmundsson hóf nám við Myndlistarskólann á Akureyri aðeins fimm ára gamall, undir leiðsögn Rósu Kristínar Júlíusdóttur. Listferill Karls spannar nú rúma tvo áratugi og kemur hann í verkum sínum skýrt til skila þeirri næmu, listrænu tilfinningu sem býr innra með honum.

Lesa meira um listamennina Karl og Erling

Karl, sem er mál- og hreyfihamlaður, útskrifaðist af myndlistabraut Verkmenntaskólans á Akureyri árið 2007 og hefur frá árinu 2000 hefur haldið fjölda einkasýninga sem og tekið þátt í samsýningum. Árið 2015 var Karl útnefndur listamaður ársins hjá List án landamæra.   

Erling T. V. Klingenberg birtist oft sjálfur í listsögulegum tilvísunum í eigin verkum. Tilvísunum sem notaðar eru til að ná fram hlutlægri framsetningu og huglægum ímyndum. Vinnuaðferðir hans sveiflast á milli þess óþægilega og þess einlæga. Ágengar tilfinningar eru einnig algengt viðfangsefni verka hans. Erling T. V. Klingenberg stundaði nám í myndlist á Íslandi, í Þýskalandi og Kanada. Hann hefur sýnt víða hérlendis og erlendis og er einn af stofnendum Kling & Bang í Reykjavík.

Sjónýsing á fjórum verkum af átta. Nærmyndafletir af rifnum ljósbláum gallabuxum; rauður og stundum grænn undirlitur skín í gegnum rifur og rauðir punktar/skriftarlínur liggja yfir. Áferðin er gróf, með sjáanlegum þráðum og kornóttum skuggum. Rauðu punktarnir líkjast prentvillum og skapa tilfinningu um bæði viðgerð og sár.

Hrafn Hólmfríðarson (Krummi)

Bótaþegi
2022 
Ljósmyndir á álplötum

Hrafn Hólmfríðarson (1990) eða Krummi útskrifaðist úr Ljósmyndaskólanum snemma árs 2021 og hefur á skömmum tíma vakið athygli fyrir sterkar stemningar og næmt vald á ljósmyndamiðlinum. Hann hefur sýnt í Gallerí Porti, Ásmundarsal, Ljósmyndasafni Reykjavíkur og á Copenhagen Photo Festival.

Lesa meira um Krumma

Krummi á við jafnvægistruflanir að stríða, ásamt skerðingu á fínhreyfingum og snertiskyni í hægri hlið líkamans.
Bótaþegi er áhrifaríkt og persónulegt ljósmyndaverk Hrafns Hólmfríðarsonar Jónssonar (Krumma) sem fjallar um þann veruleika að vera fatlaður og lifa við fátækt í íslensku velferðarkerfi 21. aldarinnar – að líða efnislegan skort í einu best stæða ríki heims. Í verkinu kallast hið persónulega á við hið stóra samfélagslega samhengi og úr verður upplifun sem snertir, vekur til umhugsunar og býður okkur nýja sýn. Hér er dregin upp sterk mynd af samspili markaðar og velferðarkerfis í þjóðfélagi þar sem skilaboðin eru skýr: Hamingjan er fólgin í vaxandi kaupmætti. Hver er þá staða þess sem ekki getur tekið þátt í neyslukapphlaupinu?

Hlusta má á skemmtilegt viðtal við Krumma í Víðsjá hér og hefst á mínútu 13.20 af þættinum.
Tekið af vef Listahátíðar

Sjónlýsing á ljósmynd af verkinu Nokkrir kúptir, ullarhnappar á vegg, raðað í skáhallt mynstur. Áferðin er loðin. Hver eining varpar mjúkum skugga niður á vegginn sem leggur áherslu á þrívídd og handverkslega mýkt efnisins.

Starfsfólk Ás vinnustofu

Hljóma
2023 
Ull

Í Ási vinnustofu er lögð áhersla á að skapa fólki með skerta starfsgetu vinnuaðstöðu sem sniðin er að þörfum þess og getu. Áhersla er lögð á að efla sjálfsöryggi einstaklingsins og starfshæfni með það að markmiði að starfa á almennum vinnumarkaði. Jafnframt er leitast við að gera vinnu aðgengilega hverjum og einum með það að leiðarljósi að „enginn geti allt en allir geti eitthvað“. Þau sem starfa í Ási vinnustofu hafa tækifæri til að velja virknihópa í Vinnu og virkni ár hvert.

Sjónlýsing: Litaðir, filtaðir ullarhnútar í ýmsum stærðum hanga á þunnum þráðum í lóðréttum röðum á hvítum vegg. Áferðin er loðin og mjúk, með fíngerðum trefjum sem sjást í nærmynd. Formin hanga með reglulegu bili og mynda taktfast mynstur; daufir skuggar undir hverju formi gefa dýpt og tilfinningu fyrir léttleika og hreyfingu.

Starfsfólk Ás vinnustofu

Samhljóma
2023 
Blönduð tækni

Í Ási vinnustofu er lögð áhersla á að skapa fólki með skerta starfsgetu vinnuaðstöðu sem sniðin er að þörfum þess og getu. Áhersla er lögð á að efla sjálfsöryggi einstaklingsins og starfshæfni með það að markmiði að starfa á almennum vinnumarkaði. Jafnframt er leitast við að gera vinnu aðgengilega hverjum og einum með það að leiðarljósi að „enginn geti allt en allir geti eitthvað“. Þeir sem starfa í Ási vinnustofu hafa tækifæri til að velja virknihópa í Vinnu og virkni ár hvert.

Sindri Ploder

Ef ég væri skrímsli
2023 
Penni á pappír

Sindri Ploder (f. 1997) hefur teiknað skrímsli frá tólf ára aldri og notast helst við penna og pappír en hefur í seinni tíð einnig fært teikningar sínar yfir í þrívídd og gert skúlptúra í við, keramik, mósaík og textíl. Árið 2019 tók hann listaáfanga í Myndlistaskólanum í Reykjavík og var í kjölfarið með verk á samsýningu í skólanum en Sindri hefur síðan verið í listnámi hjá Fjölmennt.

Lesa meira um Sindra og listaverkið

Verk Sindra eru mörg hver sjálfsmyndir, þar sem glettni, dirfska og ögrandi gleði leynir sér ekki. Sindri hefur tekið þátt í fjölda samsýninga má þar nefna Brot af annars konar þekkingu í Nýlistasafninu og sýningu á vegum List án landamæra árið 2017, þar sem hann vann með hönnuðinum Munda Vonda.

Árið 2023 var Sindri útnefndur listamanneskja ársins hjá List án landamæra.

Bengt Berglund

Án titils
1981

Bengt Berglund (1936) lauk námi frá Konstfack í Stokkhólmi og starfaði hjá postulínsverksmiðjunni Gustavsberg á árunum 1960 til 1982. Hann var einn fremsti leirlistamaður Svía á 20. öld og hvað þekktastur fyrir skúlptúra úr steinleir og veggplatta. Verk hans eru í eigu safna meðal annars á Nationalmuseum.

Um er að ræða seríu sem samanstendur af 19 emaleruðum veggplöttum, stærð hvers platta er 60 cm*60 cm.

Eva Þengilsdóttir

Spuni
2024 
Ull á striga
140 cm *200 cm – tvö verk 

Í verkum sínum skoðar Eva Þengilsdóttir (f. 1966) mörkin milli menningararfs, hefða og framtíðar. Verk hennar kalla gjarnan á þátttöku áhorfandans, hvetja til íhugunar og eigin túlkunar. Samhliða listsköpun hefur Eva sinnt sýningarstjórn, sýningarhönnun, myndskreytt og skrifað bækur — þar á meðal Nálu – riddarasögu, sem hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Meðal hugverka hennar má einnig nefna Kærleikskúluna, þar sem fremstu listamenn þjóðarinnar sameinast í stuðningi við starf með fötluðum börnum.