Marta Jóns Hjördísardóttir, talskona sjúklinga á Landspítalanum, hélt fyrirlesturinn Sjúklingar og mannréttindi í Mannréttindahúsinu 25. september og fór yfir réttindi sjúklinga í víðu samhengi.
Fyrirlesturinn var vel sóttur og líflegar umræður spunnust um réttindi og stöðu sjúklinga. Sagði Marta að sér finnist mikilvægt að sjúklingar séu meðvitaðir um réttindi sín.
„Sjúklingur á rétt á góðri heilbrigðisþjónustu. Þú átt rétt á að fá upplýsingar og þú átt rétt á geta leitað þér aðstoðar eða senda inn kvörtun,“ sagði Marta.
Einnig sagði hún að Landspítalinn vilji gjarnan fá að vita ef sjúklingar upplifa eitthvað sem þeim þykir í ólagi. Spítalinn vilji fá endurgjöf og þurfi að æfa sig í að taka vel í hana.
„Og það er kannski það sem ég myndi vilja að fólk reyni að finna hjá sér. Hugrekki til að hafa samband ef það er eitthvað sem það vill koma á framfæri.“